ORKA Í HEIMABYGGÐ

Baseload Power á Íslandi vinnur að nýsköpun og uppbyggingu á sviði jarðhitanýtingar – í þágu sveitar og þjóðar.

Starfsemi okkar

Við nýtum jarðhitaauðlindir við lægra hitastig en hefðbundnar virkjanir á Íslandi og framleiðum þannig bæði rafmagn og heitt vatn. Með því að framleiða orku í heimabyggð viljum við bæta orkuöryggi og skapa ný atvinnutækifæri nærliggjandi sveitum til handa á sjálfbæran og umhverfisvænan hátt.

Við leggjum ríka áherslu á að allar okkar framkvæmdir séu unnar í góðri samvinnu við landeigendur, sveitarfélög, hitaveitur og notendur orkunnar, enda er mikilvægt að ný orkuver rísi í samhljómi við náttúru og nærsamfélag.

Þess vegna eru orkuverin okkar fyrirferðalítil, en þótt þau séu smá eru þau heldur betur kná.

Orkuverin okkar

Kópsvatn

Uppbygging á fyrsta orkuverinu okkar við Kópsvatn hófst vorið 2018 og það var fullklárað á haustmánuðum sama ár. Uppsett afl er 600 kW og við byrjuðum strax að selja rafmagn á dreifikerfið stuttu eftir prófun á starfshæfni. Borholan við Kópsvatn sækir jarðhitavatn við 117 gráðu hita með rafknúinni dælu sem sökkt er niður. Þegar jarðhitavatn hefur verið sótt til raforkuframleiðslu sér Kópsvatn hitaveitu sveitarfélagsins Flúða fyrir 85 gráðu heitu jarðhitavatni sem er notað til að hita upp heimili, gróðurhús, baðstaði og fleira.

Reykholt

Reykholt er annað orkuverið okkar þar sem starfsemi hófst árið 2021 með framleiðslu á 300 kW raforku. Sjálfvirka borholan við Reykholt sækir jarðhitavatn við 127 gráðu hita. Þegar jarðhitavatn hefur verið sótt til raforkuframleiðslu sér Reykholt nærliggjandi hóteli, heimilum og sveitabæjum fyrir 80 gráðu heitu jarðhitavatni.

Efri-Reykir

Borholan ER-23 við Efri-Reyki var tekin í notkun árið 1988 og þaðan hefur komið allt að 147 gráðu heitt jarðhitavatn. Síðan þá hefur hún séð nærliggjandi sveitabæjum og nokkur hundruðum sumarbústaða fyrir hitaveitu. Í júlí 2022 boruðum við nýja borholu, ER-24, til að auka framleiðslu og nýta jarðhita til raforkuframleiðslu og annað heitavatn fyrir hitaveitu. Nýja borholan hefur til þessa ekki enn skilað af sér nægu magni jarðhitavökva, svo frekari rannsókna er þörf áður en áfram er haldið með þróun svæðisins.

Samstarfsaðilar

Samorka er hagsmunasamtök fjölbreyttra fyrirtækja og aðila í sjálfbærri orku- og veitustarfsemi.

Aðildarfyrirtæki Samorku reka grundvallarinnviði samfélagsins. Það eru hita-, vatns- og fráveitur ásamt fyrirtækjum úr allri virðiskeðju grænnar raforku; framleiðslu, flutningi, dreifingu, sölu og ráðgjöf.

Jarðhitafélag Íslands vinnur að því að efla þekkingu á jarðhita og gegnir mikilvægu hlutverki sem tengiliður milli vinnslu, rannsókna og nýtingar jarðhitaauðlinda. Markmið félagsins er að stuðla að hagkvæmri og sjálfbærri nýtingu jarðhita.

Teymið

Marta Rós er með doktorsgráðu og MSc-gráðu í vélaverkfræði frá Háskóla Íslands, með hluta námsins við Norska vísinda- og tækniháskólann (NTNU) á sviði orku- og umhverfisverkfræði. Hún er reyndur stjórnandi innan jarðhitageirans með áherslu á framleiðslu rafmagns og varma, nýtingu auðlinda, orkunýtni, sjálfbærni og stefnumótun.

Marta Rós Karlsdóttir

Framkvæmdastjóri

Hermann hlaut MBA-gráðu frá háskólanum í Michigan og BS-gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands. Hann býr yfir mikilli reynslu af fjármálum fyrirtækja í tengslum við endurnýjanlega orku og jarðhitaverkefni, þ.m.t. verðmat, arðsemismat, fjármögnun og fjáröflun.

Hermann Baldursson

Fjármála- og rekstrarstuðningsstjóri

Hjörleifur er reynslumikill þegar kemur að verkefnaþróun sem sést á starfi hans innan vélaiðnaðarins. Hann er með BS-gráðu í véla- og orkutæknifræði frá Háskólanum í Reykjavík og var þar einnig hluti af liðinu sem tók þátt í Formula Student-keppninni. Hann er líka með meistaragráðu í sjálfbærri orkuverkfræði frá Íslenska orkuháskólanum.

Hjörleifur Þór Steingrímsson

Verkefnaþróun

Sæmundur býr yfir mikilli reynslu af störfum í jarðhitageiranum, en hann hefur starfað við viðhald og rekstur jarðhitaorkuvera um árabil. Þá hefur hann meðal annars séð um fjárhagsáætlanagerð í tengslum við fjárfestingar á tæknibúnaði og rekstrarfjárreiður. Þá hefur hann einnig mikla reynslu af því að leiða verkefni með nýsköpun og umbætur að leiðarljósi.

Sæmundur Guðlaugsson

Rekstrarstjóri virkjana

Gunnar er með doktorsgráðu í tilraunaeðlisfræði frá Háskólanum í Basel í Sviss, meistaragráðu í eðlisfræði frá Háskólanum í Kaupmannahöfn og BSc í eðlisfræði og jarðeðlisfræði frá Háskóla Íslands. Gunnar býr yfir víðtækri sérfræðiþekkingu á jarðhitakerfum, forðaverkfræði og auðlindastjórnun.

Gunnar Gunnarsson

Auðlindastjóri

Guðmundur ber ábyrgð á þróun viðskiptatækifæra og uppbyggingu og utanumhaldi samstarfs við lykil hagsmunaaðila Baseload Power á Íslandi og hefur það að markmiði að tryggja stöðugan vöxt og árangur í starfi fyrirtækisins. Hann er með meistaragráðu í lögfræði frá Háskóla Íslands og býr yfir víðtækri reynslu og þekkingu á viðskiptaþróun, samningagerð og sölu.

Guðmundur Páll Líndal

Viðskiptaþróunarstjóri

Tenglar og samfélagsmiðlar

Ertu með spurningu eða ábendingu fyrir Baseload Power á Íslandi?

Hafa samband